Mark Carney, seðlabankastjóri Kanada, var í dag útnefndur næsti bankastjóri Englandsbanka. Hann mun taka við stöðunni þegar Mervyn King stígur frá í júní á næsta ári. Mervyn King hefur vermt bankastjórastólinn í rúm níu ár.

Bloomberg-fréttaveitan segir valið koma nokkuð á óvart enda hafi Carney gefið það út að hann hafi ekki sóst eftir starfinu. Paul Tucker, aðstoðarseðlabankastjóri Bretlands, þótti af þessum sökum líklegastur til að hreppa stöðuna.

Með ráðningunni verður Carney á meðal voldugustu manna í bresku efnahagslífi eins og King. Carney mun jafnframt verða formaður peninganefndar Englandsbanka.