Mikið verk hefur verið unnið bakvið tjöldin og Íslendingar munu ekki sjá árangurinn af því fyrr en seinna í sumar.

Þetta sagði Mark Flanagan, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á blaðamannfundi í morgun en sendinefnd AGS, undir stjórn Flanagans hefur í samstarfi við íslensk stjórnvöld nær lokið fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda vegna lánafyrirgreiðslu sjóðsins.

Flanagan sagði að samstarfi íslenskra stjórnvalda og AGS miðaði vel áfram, vissulega hafði dregið úr stefnumótun á meðan nýleg kosningabarátta leið yfir og ný ríkisstjórn var mynduð. Hins vegar væri það ekki áhyggjuefni að mati AGS, mestu máli skipti að allir héldu áætlun.

Þá lagði Flanagan mikla áherslu á að áætlun stjórnvalda miðaði að því að endurreisa bankakerfið á næstu vikum. Hann sagði að því fyrr sem gengið yrði frá efnahagsreikningi bankanna því betra.

Aðspurður um halla ríkissjóðs sagði Flanagan að ríkisstjórnin þyrfti fljótlega að kynna nákvæmari áætlanir um það hvernig hún hyggst mæta hallanum. Hann sagði að eftir fundi með aðilum ríkisstjórnarinnar væri hann þess fullviss að það væri vilji innan hennar til að loka gatinu en enn hefðu engar nákvæmar tillögur verið lagðar fram. Aðspurður um hvort það þyrfti ekki að gerast innan skamms tók Flanagan undir það.

Íslensk stjórnvöld munu á næstu vikum senda framkvæmdastjórn sjóðsins uppfærða viljayfirlýsingu (e. Letter of Intent), líkt og gert er í lok hverrar endurskoðunar. Yfirlýsingin lýsir helstu verkefnum og áætlunum stjórnvalda næstu mánuði.