Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook er kominn hálfa leið að markmiði sínu um að heimsækja þau 30 ríki Bandaríkjanna sem hann hefur aldrei komið til. Samkvæmt frétt Wall Street Journal hóf hann þetta verkefni í byrjun árs til að reyna að öðlast betri skilning á lífi venjulegs fólks í Bandaríkjunum.

Á ferðum sínum hefur Zuckerberg lagt upp úr því að hitta fólk sem verður ekki á vegi hans undir venjulegum kringumstæðum. Það eru þó ákveðnar reglur sem gilda ef fólk hittir Zuckerberg. Fólk veit líklega ekki að hann sé á leiðinni. Ef fólk veit að hann sé að koma er það beðið um að halda því fyrir sjálft sig auk þess fólk er beðið um að tala ekki um hvað fór á milli þess og Zuckerberg.

Vangaveltur eru uppi um hver raunverulegur tilgangur ferðarinnar sé. Zuckerberg mun hafa sagt við einn af þeim sem hann hitti að ef að fjölmiðlamaður myndi hringja ætti viðkomandi að segja að Zuckerberg væri ekki að fara að bjóða sig fram til forseta. Þrátt fyrir það telja sumir að hyggist bjóða sig fram til forseta árið 2020. Breska veðmálasíða bet365 telur hann níunda líklegastan til þess að verða forseti árið 2020 en gefur honum þó stuðulinn 23.