Í nótt náðu hlutabréf á mörkuðum í Asíu sínu hæsta gildi síðustu tvo og hálfan mánuð, degi eftir að hlutabréf á Wall Street náðu sögulegu hámarki í kjölfarið á góðum atvinnutölum frá Bandaríkjunum og væntingum um frekari aðgerðir til að örva efnahagslífið.

100 milljarða dala innspýting

Hækkaði MSCI vísitalan fyrir hlutabréf í Asíu og Kyrrahafssvæðinu fyrir utan Japan um 0,6% í hæsta gildi sitt síðan seint í Apríl.

Japanska Nikkei vísitalan hækkaði um 2,5% því fjárfestar veðja á að ríkisstjórnin muni auka ríkisútgjöld um andvirði 100 milljarða bandaríkjadala til að örva hagkerfið, mögulega með aukinni peningaprentun Seðlabanka landsins.

Nýtt hámark á Wall Street

S&P 500 vísitalan náði nýju hámarki í gær, í fyrsta sinn í meira en ár, og náði hún 2.137,16 stigum, en síðasta hámark hennar var náð 21. maí árið 2015 þegar vísitalan fór í 2.130, 82 stig.

Ávöxtunarkrafa bandarískra, japanskra, þýskra, franskra og breskra ríkisskuldabréfa náðu öll sögulegu lágmarki í síðustu viku þegar fjárfestar veðjuðu á auknar aðgerðir ríkisstjórna til að styðja við efnahagskerfið í kjölfarið á áhrifum útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Hlutabréf í Indónesíu, Thailandi og Indlandi náðu jafnframt sögulegum hæðum.