Olíuverð hélst nokkuð stöðugt í gær og í morgun og er verð nú um 106 dollarar fyrir tunnu af Brent olíu. Nú er fjórða vika olíuverðslækkana að líða og hefur olíuverð ekki lækkað svo lengi samféllt frá því snemma á árinu 2010. Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar Reuters í dag.

Hlutabréfamarkaðir hafa sveiflast í vikunni og lækkaði verð bæði á asískum og evrópskum markaði í morgun. Ástæðan er meðal annars nýjar hagtölur í Bandaríkjunum, Kína og Evrópu sem allar sýna tiltölulega veika stöðu hagkerfisins. Þá er enn óráðið um framtíð Grikkja í evrusamstarfinu.

Reuters hefur eftir sérfræðingi að áfram megi búast við viðkvæmum hlutabréfa- og olíumarkaði um allan heim þar til lægi á evrusvæðinu. Sem standi séu verðbreytingar knúnar af nýjustu fréttum hverju sinni.