Dow Jones hlutabréfavísitalan hefur fallið um um það bil eitt prósent í dag, í kjölfar hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamörkuðum í Bandaríkjunum.

Hagtölur sem benda til aukinnar þenslu og ummæli Jerome Powell, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, sem skilja mátti sem svo að bankinn væri tilbúinn að hækka stýrivexti ef sú þróun héldi áfram, eru sögð eiga sök á rísandi ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa í frétt Reuters , sem aftur hafi haft neikvæð áhrif á hlutabréfamarkaði. Að auki eru áhyggjur af aukinni verðbólgu nefndar.

Lækkun hinnar vel þekktu hlutabréfavísitölu er sú fyrsta í sex daga, en þess má geta að miðað við heildarmarkaðsvirði þeirra fyrirtækja sem hún inniheldur árið 2017 nemur 1% lækkun um 7700 milljarða króna lækkun.

Auk Dow Jones féllu S&P500 og Nasdaq vísitölurnar einnig, en 9 af 11 stærstu atvinnugreinum í S&P500, sem inniheldur 500 fyrirtæki, lækkuðu. Mest áhrif hafði lækkun tæknirisanna Alphabet (eignarhaldsfélag google), Netflix, Facebook og Apple, sem oft eru þekkt í sameiningu sem FANG, og lækkuðu öll á bilinu 1,8 – 2,8%.