Evrópskir hlutabréfamarkaðir lækkuðu lítilega í dag. Hriðjuverkaárásin í Nice hafði engu að síður áhrif á gengi bréfa í ferðamannageiranum.

Evrópska Stoxx 600 vísitalan lækkaði um 0,25% í dag, en er upp um 3,2% þessa vikuna. Franska CAC 40 vísitalan lækkaði um 0,3% og þýska DAX vísitalan um 0,01%. Breska FTSE 100 vísitalan fór upp um 0,22%.

Hrávörumarkaðir hreyfðust einnig lítið í dag. Tunnan af WTI hráolíu kostar nú 45,76 dali, en tunnan af BRENT hráolíu kostar 47,50 dali. Einnig hækkaði verð á gasi og sojabaunum.

Eðalmálmarnir, sem hafa hækkað í verði á undanförnum vikum, lækkuðu lítillega í dag. Verð á gulli stendur nú í 1329,40 dollurum, verð á silvri í 20,18 dollurum, verð á kopar í 2,23 dollurum og platínum í 1094,4 dollurum.

Á hrávörumörkuðum voru mestar hreyfingar á kakói, sem lækkaði um rúm 3%, sykri sem hefur lækkað um 2,61% og kaffi sem hefur lækkað um 2,53%.

Bandaríkjadalur hefur styrkst mest gagnvart öðrum gjaldmiðlum það sem af er degi. Gengi dollarsins stendur nú í 122,08 krónum.