Hlutabréfaverð á flestum mörkuðum í Evrópu hefur hækkað þó nokkuð á flestum mörkuðum í Evrópu í byrjun dagsins eftir miklar lækkanir síðustu daga. Eftir að hafa hækkað um 0,3% í gær hefur Euro Stoxx 50 vísitalan hækkað um 2,5% það sem af er degi og er hækkunin svipuð eða enn meiri í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og á Spáni en vísitölur landanna hafa hækkað um 2,4-2,8%. Þá hefur FTSE MIB vísitalan á Ítalíu einnig hækkað um 2,1%.

Sömu sögu er að segja af Norðurlöndunum en OMX Nordic 40 hefur hækkað um 2,6% það sem af er degi en mest hækkun hefur verið í Kaupmannahöfn eða tæp 3%.

Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum tóku einnig mikið stökk í viðskiptum dagsins þar sem S&P 500 vísitalan hækkaði um 4,6%, Nasdaq 100 um 4,9% auk þess sem Dow Jones vísitalan hækkaði um 5,1% sem er mesta hækkun á vísitölunni á einum degi frá 2009. Mikil hækkun varð m.a. á bréfum Apple sem hækkuðu um 9,3% eftir að hafa lækkað um 12,7% í síðustu viku.