*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Erlent 19. janúar 2020 16:53

Markaðir lokaðir í sögulegu hámarki

Helstu hlutabréfavísitölur enduðu í sögulegu hámarki fyrir helgi en markaðir verða lokaðir á morgun mánudag.

Ritstjórn
Martin Luther King er heiðraður með sérstökum frídegi á morgun, þriðja mánudaginn í janúar og eru hlutabréfamarkaðir vestanhafs því lokaðir þá.
Haraldur Guðjónsson

Eftir að bandarískir hlutabréfamarkaðir fóru í hæstu hæðir á föstudag, verða þeir lokaðir á morgun vegna minningardags um mannréttindabaráttumanninn Martin Luther King.

Nánast má segja að það sem af er ári hafi hlutabréfamarkaðir vestanhafs slegið nýtt met daglega, en S&P 500 vísitalan hefur hækkað upp um 2,8% á fyrstu þremur vikum ársins og Nasdaq vísitalan hefur hækkað um 4%.

Hækkaði S&P 500 vísitalan um 0,39% á föstudaginn, og fór í 3.329,62 stig, en Nasdaq Composite vísitalan hækkaði um 0,34%, upp í 9.388,94 stig. Einnig hækkaði Dow Jones Industrial Average vísitalan um 0,17%, upp í 29.348,10 stig. Mesta vikulega hækkunin frá því í ágúst á hlutabréfamörkuðum.

Var þetta þriðji dagurinn í röð sem hlutabréfamarkaðir fóru í methæðir en jafnframt var hækkun dagsins einnig met að því er Marketwatch greinir frá. Bjartsýni hefur aukist vegna bæði innri hagtalna sem hafa birst sem og samninga Bandaríkjanna í tolladeilum bæði við Kína og samþykki Bandaríkjaþings á arftaka NAFTA samninganna við Kanada og Mexíkó.

Á morgun verður þó hlé þar sem þriðja mánudag í janúar á hverju ári halda Bandaríkjamenn upp á einn af 10 opinberum frídögum sínum á ári, sem flestir fljóta milli daga utan þjóðhátíðardagsins, Nýársdags og Jóladags, sem jafnframt er eini frídagur landsins tengdur kirkjudagatalinu.

Á þessum degi fagna Bandaríkjamenn lífi og starfi prestsins Martin Luther King, sem fæddist 15. janúar 1929 og var drepinn 4. aprí 1968, en hann barðist alla ævina ötullega fyrir jöfnum réttindum fyrir blökkumenn í landinu á við aðra borgara. Fyrst eftir að hátíðisdagurinn var settur í lög, árið 1983 af Ronald Reagan, héldu markaðir áfram að vera opnir á honum þar til 19. janúar 1998 sem kauphöllin í New York ákvað að heiðra daginn með því að hafa lokað.