Gengi hlutabréfa hefur almennt hækkað á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum í dag og hefur það dregið úr gengislækkun síðustu daga. Breska dagblaðið Guardian hefur eftir sérfræðingi á markaði að fjárfestar skuli ekki fyllast of mikilli bjartsýni. Þótt markaðurinn hafi verið að rétta úr kútnum eftir dapra tíð megi ekki búast við að ástandið vari lengi.

Nikkei-vísitalan í Japan lækkaði engu að síður í morgun eða um rétt rúmlega 1%. Á móti hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkað um 1%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hækkað um 1,5% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi hækkað um 1,8%.