Gengi hlutabréfa hækkaði almennt á mörkuðum í Asíu í nótt. Óvissuástand í kjölfar átaka um Krímskaga, ekki síst ótti um að til vopnaðra átaka myndi koma, olli titringi í röðum fjárfesta víða um heim í síðustu viku. Undir lok síðustu viku tóku fjárfestar að róast. Þá bætti úr skák að stjórnvöld í Bandaríkjunum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt að frysta eignir og hefta för nokkurra ráðamanna til og frá Rússlandi og Úkraínu í kjölfar atkvæðagreiðslu þar sem íbúar á Krímskaga áttu að segja til um hvort þeir vildu áfram búa með Úkraínumönnum eða sameinasta Rússlandi.

Nikkei-hlutabréfavísitalan í Japan hækkaði um 0,9% í nótt eftir mikla lækkun síðustu daga. Þá byrjaði dagurinn vel á evrópskum mörkuðum. FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkaði um 0,1% í upphafi viðskiptadagsins, Dax-vísitalan í Þýskalandi hækkaði um 0,2% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi var óbreytt.