Hlutabréf hækkuðu í Asíu í morgun og hafa jafnframt hækkað lítillega það sem af er degi í Evrópu. Erlendir greiningaraðilar, m.a. viðmælendur Reuters fréttastofunnar og Bloomberg fréttaveitunnar, telja að markaðir séu að bregðast við kosningaúrslitnum í Grikklandi um helgina. Hins vegar hafa kosningaúrslit í Frakklandi, þar sem sósíalistar unnu stórsigur, valdið nokkrum áhyggjum meðal evrópskra fjárfesta.

Sem kunnugt er sigraði hægriflokkurinn Nýtt lýðræði í þingkosningum í Grikklandi um helgina. Formaður flokksins, Antonis Samaras, lýsti því yfir í gærkvöldi að flokkurinn ætlaði að virða alla samninga Grikklands við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

MSCI Kyrrahafsvísitalan hækkaði um 1,5% í morgun. Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan  um 1,8%, í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 0,5% og í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 1%. Þá hækkaði S&P 200 vísitalan í Ástralíu um 2% og í S-Kóreu hækkaði Kospi vísitalan um 1,8%.

Sem fyrr segir hafa markaði í Evrópu hækkað lítillega í morgun. Þannig FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 0,3% það sem af er degi. Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan staðið í stað í þegar þetta er skrifað um k. 9.30 á íslenskum tíma. Í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,2%, í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,8% og í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 0,2%. Í Zurich hefur SMI vísitalan hækkað um 0,3% en í Madrid hefur IBEX35 vísitalan lækkað um 1,3%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 0,3%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan staðið í stað í morgun og það sama á við um OBX vísitöluna í Osló.