Gengi bandarískra hlutabréfa hefur risið nokkuð frá opnun markaða vestanhafs fyrir rúmum klukkutíma síðan, á sama tíma og ávöxtunarkröfur skuldabréfa hafa lækkað. Eru markaðsaðilar sagðir vera að veðja á inngrip seðlabanka í miklar lækkanir sem verið hafa síðustu viku vegna áhrifa útbreiðslu kórónavírusins Covid-19 sem rakinn er til Wuhan borgar í Kína.

Þegar þetta er skrifað hefur Dow Jones Industrial Average vísitalan hækkað um 0,52%, upp í 25.542,17 stig það sem af er viðskiptadegi, og S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 0,47%, upp í 2.968,10 stig.

Hafa fjárfestar í auknum mæli veðjað á að bandaríski seðlabankinn, og aðrir víða um heim, muni lækka vexti, en til að mynda hefur seðlabanki Japans þegar gefið til kynna að hann muni grípa til örvunaraðgerða. Japanska Topix vísitalan hækkaði um 0,99% í kjölfarið, upp í 1.525,87 stig.

Í morgun hækkuðu sambærilegar vísitölur í Asíu og Evrópu nokkuð, en FT sagði frá því að um tíma hafði Stoxx 600 vísitalan í Evrópu hækkað um 1,9%, þó hún hafi í lok dags lækkað um 0,54%, í 373,46 stig.

FTSE 100 vísitalan í London fór um tíma upp um 1,7%, en endaði daginn á að hækka um 0,85%, upp í 6.636,84 stig, meðan kínverska CSI 300 vísitalan endaði daginn á að hafa hækkað um 3,3%, sem er mesta hækkun frá því í maí. Shanghai Composite vísitalan hækkaði um 3,2%, en markaðsaðilar í Kína búast jafnframt við inngripum seðlabanka landsins sem og mögulega skattalækkunum að því er WSJ greinir frá.

Hins vegar lækkaði FTSE MIB vísitalan á Ítalíu, en landið hefur verið leikið einna verst af vírusnum, um 3,7%.