Leiðtogum G20 ríkjanna svokölluðu tókst ekki að ná samkomulagi um hvernig eigi að auka völd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins svo sjóðurinn geti tekist á við skuldavanda evrusvæðisins. Voru leiðtogarnir sammála um að nauðsynlegt sé að auka völd og áhrif AGS, en það var ekki nóg til að samkomulag næðist um leiðina að því markmiði.

Í frétt Guardian segir að fundur G20 ríkjanna í Cannes í Frakklandi hafi fallið í skuggann af áframhaldandi pólitísku argaþrasi í Grikklandi og áhyggjum af Ítalíu, sem samþykkti aðstoð AGS við að koma ríkisfjármálum þar í landi í samt lag. Mjög óvenjulegt er að eitt stærsta hagkerfi heimsins þurfi að leita aðstoðar AGS, en hún mun felast í eftirliti og ráðgjöf, en ekki beinni fjárhagslegri aðstoð.

Bandaríkin taka ekki þátt

Skortur á ítarlegri útlistun á því hvernig auka eigi völd gjaldeyrissjóðsins hafði slæm áhrif á fjárfesta og lækkuðu hlutabréfavísitölur í kjölfarið og ávöxtunarkrafa á ítölsk ríkisskuldabréf hækkaði enn á ný og hefur slegið enn eitt metið.

Það eina sem kom út úr fundinum var samkomulag um að AGS eigi að vinna að því næstu þrjá mánuði að koma á sérstökum reikningi, sem nota eigi til að aðstoða við lausn á skuldavanda evrusvæðisins. Þau ríki, sem telja að Evrópa eigi að leysa sín vandamál hjálparlaust, þurfa ekki að greiða inn á þennan reikning, en í þeim hópi ber að nefna Bandaríkin. Önnur ríki, eins og Brasilía og Rússland, sem hafa lýst áhuga sínum á að hjálpa evrusvæðinu, munu hins vegar geta lagt sitt af mörkum.