Frumkvöðullinn Fida Abu Libdeh flutti til Íslands frá Palestínu árið 1995, þegar hún var sextán ára gömul. Þrátt fyrir þær áskoranir sem margir innflytjendur takast á við í nýju samfélagi, ásamt því að glíma við lesblindu, hefur henni tekist að byggja upp nýsköpunarfyrirtæki á Suðurnesjum sem framleiðir kísilríkt fæðubótarefni úr affallsvatni jarðhitavirkjunar. Fyrirtækið heitir geoSilica og er í hröðum vexti um þessar mundir.

Mikil eftirspurn er eftir kísilríkum drykkjarvörum fyrirtækisins, sem fást nú á Íslandi, í Bandaríkjunum, Kína, öllum þýskumælandi löndum og víðar. Fyrirtækið er með tvær nýjar vörur í þróun og hefur sótt um styrk frá Horizon 2020 til að fjármagna klíníska rannsókn á áhrifum íslensks kísils á mannslíkamann.

„Það eru verðmæti fólgin í ótrúlegustu hlutum,“ segir Fida. Eftir að hafa fallið í menntaskóla, farið á milli láglaunastarfa, snúið heim til Palestínu og komið aftur til Íslands rétt fyrir hrun náði Fida að ljúka stúdentsprófi á háskólabrú Keilis á Ásbrú. Fida, sem hafði alltaf verið góð í stærðfræði og efnafræði, kláraði síðan orku- og umhverfistæknifræði frá Háskóla Íslands við Keili, þar sem hugmyndin að geoSilica varð til. Í lokaverkefni sínu rannsakaði Fida hvernig nýta mætti affallsvatn sem kemur til vegna raforkuvinnslu í jarðvarmavirkjunum.

„Affallsvatn er heitt og inniheldur ýmis efni sem geta haft mengandi og skaðleg áhrif á grunnvatn, gróður, dýr, tækjabúnað og fleira. En þetta er steinefnaríkt vatn og enginn hafði spurt hvort hægt væri að nýta það,“ segir Fida.

„Ég komst að því að það væru mikil verðmæti fólgin í þessu vatni, sérstaklega vegna þess að í því er mikill kísill sem mögulega væri hægt að nýta í heilsuafurðir.“

Kísill er steinefni sem finnst í náttúrunni og ýmsum fæðutegundum. Rannsóknir sýna að kísill er nauðsynlegt næringarefni fyrir mannslíkamann og gegnir til dæmis lykilhlutverki í myndun og viðhaldi beina, ásamt því að hafa góð áhrif á hár, húð og neglur. Jafnframt getur kísill auðveldað líkamanum upptöku á kollagen og steinefnum á borð við kalk og magnesíum.

Fida og samnemandi hennar í tæknifræðinni, Burkni Pálsson, stofnuðu geoSilica árið 2012 í kringum hugmyndina að nýta kísil úr affallsvatni jarðvarmavirkjana til matvælavinnslu. Slík nýting var óþekkt annars staðar í heiminum. Til að styrkja stoðir fyrirtækisins lauk Fida MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík. Haustið 2012 fengu þau 30 milljóna króna verkefnastyrk frá Tækniþróunarsjóði til að rannsaka og þróa framleiðsluaðferðir. Sama ár hófst starfsemi við Hellisheiðarvirkjun um nýtingu affallsvatns í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur.

Í dag veltir geoSilica tugum milljóna króna og selur vörur sínar á Íslandi og víðar. Starfsmenn fyrirtækisins eru sjö talsins. Fyrsta vara geoSilica – náttúrulegt kísilsteinefni í vökvaformi – rataði á íslenskan markað árið 2015. Síðastliðið haust fór geoSilica síðan með þrjár nýjar kísil- og steinefnaríkar drykkjarvörur á markað: Recover (með magnesíum), Renew (með sink og kopar) og Repair (með mangan).

Seldist upp á nokkrum mínútum

Að sögn Fidu er Ísland enn sem komið er mikilvægasti markaður geoSilica, en ekki er langt síðan fyrirtækið hóf að selja vörur sínar á erlendum mörkuðum.

„Fyrsta árið á markaði var varan okkar seld á tólf stöðum á landinu og veltan var undir 10 milljónum króna. Í dag seljum við vörur okkar í öllum apótekum landsins, verslunum Heilsuhússins, í Fríhöfninni og í nokkrum verslunum Hagkaups, Nettó og Fjarðarkaup. Í fyrra nam veltan um 70 milljónum króna og það sem af er ári er hún álíka mikil og á öllu síðasta ári,“ segir Fida.

Við byrjuðum að selja vörur okkar á Amazon fyrir einu og hálfu ári síðan. Í vor byrjuðum við að selja í gegnum vefsíðu Fair Trade Handels AG, sem er stærsta vefverslun þýskumælandi landa fyrir heilsuvörur. Einnig seljum við vörur okkar á hollenskum, dönskum og norður-amerískum vefsíðum. Nýverið gerðum við síðan samning við kínverskan dreifingaraðila, sem sendi fjölmiðlateymi til okkar og tilkynnti um samstarfið í beinni útsendingu. Meðan á henni stóð seldist svo mikið til Kína að það sem var í boði seldist upp!

Við vorum einnig að ganga frá samningi og fyrstu pöntun við dreifingaraðila í Kanada og erum að þróa fjórar nýjar vörur eingöngu fyrir Kanadamarkað. Eftir Iceland Geothermal Conference í apríl höfum við líka verið í sambandi við fulltrúa stærstu jarðvarmavirkjana í Mexíkó um mögulegt samstarf og nýtingu á kísli úr affallsvatni jarðvarmavirkjana þar í landi,“ segir Fida.

Ísland að „meika“ það

Gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir vörum geoSilica á erlendum mörkuðum. En hvað býr þar að baki?

„Það sem tengdi okkur fyrst við erlenda markaði var salan í Fríhöfninni. Erlendir aðilar sem hafa keypt vöruna þar hafa margir haldið áfram að kaupa hana í vefversluninni okkar. Svo hafa þeir haft samband við okkur og spurt hvort þeir megi dreifa vörum okkar á erlendum mörkuðum. Ég held að þessi áhugi grundvallist á nokkrum þáttum. Það er skortur á kísli í fæðu Vesturlandabúa. Heilsuvitund neytenda um allan heim hefur aukist. Erlendir aðilar tengja Ísland við óspillta náttúru og hreint umhverfi. Síðan er Ísland einfaldlega að „meika“ það í augnablikinu. Það hjálpar mikið til.

Erlendu markaðirnir hafa þannig komið til okkar, án þess að við höfum varið krónu í markaðssetningu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .