Niðurstöður væntingarkönnunar Seðlabankans leiða í ljós að verðbólguvæntingar markaðsaðila hafa heldur lækkað til skamms tíma litið. Síðasta könnun bankans var framkvæmd í ágúst.

Í nýju könnuninni sem var framkvæmd dagana 29. október - 2. nóvember svöruðu markaðsaðilar á þann veg að þeir byggjust við 2.2% verðbólgu á fjórða ársfjórðungi 2015, 2.6% á fyrsta fjórðungi 2016 og 2.9% á öðrum.

Þetta er 0.7-1.1% lægri verðbólga en þeir gerðu ráð fyrir í ágústkönnuninni.

Einnig bendir nýja könnunin til þess að verðbólguvænting aðilanna eftir eitt ár sé 3.8%, sem er 0.1 prósentustiga lækkun í væntingum.

Væntingar til tveggja ára hækka hins vegar, en markaðsaðilarnir búast við 4% verðbólgu árið 2017, sem er 0.5 prósentum hærra en síðasta könnun gerði ráð fyrir.

Af þeim 29 markaðsaðilum á skuldabréfamarkaði sem leitað var til fékk Seðlabankinn svör frá 13 þeirra sem gefur svarhlutfallið 45%.

Meðal aðspurðra markaðsaðila voru bankar, lífeyrissjóðir, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir, verðbréfamiðlanir og fyrirtæki með starfsleyfi til eignastýringar.