Áhættuálag á skuldabréfamarkaði nam um 1,1 prósentustigi við lokun markaða á miðvikudag og hefur ekki verið hærra frá því á öðrum ársfjórðungi 2015. Áhættuálag sem er verðbólguálag að frádregnum verðbólguvæntingum hefur nú farið hækkandi fimm ársfjórðunga í röð og hefur hækkað um 1,2 prósentustig frá því á öðrum ársfjórðungi 2017. Verðbólguálag má skilgreina sem muninn á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisskuldabréfa á meðan verðbólguvæntingar byggja á könnun Seðlabanka Íslands á verðbólguvæntingum markaðsaðila sem framkvæmdar eru á hverjum ársfjórðungi.

Ávöxtunarkrafan hækkað töluvert

Á sama tíma og áhættuálag hefur ekki verið hærra í töluverðan tíma hefur ávöxtunarkrafa 10 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa RIKB 28 ekki verið hærri frá því að skuldabréfaflokkurinn fór á markað í janúar 2017. Ávöxtunarkrafan stóð við lokun markaða á miðvikudag í 5,82% og hafði þá hækkað um 0,8 prósentustig á síðustu 12 mánuðum og um 1,1 prósentustig frá því um miðjan nóvember á síðasta ári. Hefur verð skuldabréfanna lækkað um 5,75% á einu ári. Hér ber að nefna að verð á skuldabréfum færist í öfuga átt við hreyfingu á ávöxtunarkröfu þeirra auk þess sem verðbreytingar á skuldabréfum ráðast að miklu leyti á meðaltíma þeirra (e. duration) sem veldur því að prósentustigsbreyting í ávöxtunarkröfu veldur í flestum tilfellum meiri verðbreytingu á bréfunum sjálfum vegna meðaltíma þeirra. Þá hefur ávöxtunarkrafa bréfanna sem eru á gjalddaga 2028 hækkað um ríflega hálft prósentustig frá útgáfu bréfanna í ársbyrjun 2017. Frá þeim tíma hafa stýrivextir hins vegar lækkað um 0,75 prósentustig, skuldir ríkissjóðs lækkað og lánshæfismat ríkisins batnað. Þá voru verðbólguvæntingar markaðsaðila til 10 ára einungis 0,1 prósentustigi hærri á þessum ársfjórðungi en þær voru á fyrsta ársfjórðungi 2017.

Sömu sögu er að segja af skuldabréfaflokknum sem er á gjalddaga árið 2022. Ávöxtunarkrafa skuldabréfaflokksins var 5,48% við lokun markaða á mánudag og hafði þá ekki verið hærri síðan í lok ágúst 2016, skömmu áður en peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti um hálft prósentustig niður í 5,25%. Síðan þá hafa stýrivextir lækkað um eitt prósentustig til viðbótar, verðbólguvæntingar markaðsaðila lækkað um 0,2 prósentustig auk þess sem flokkurinn hefur færst nær gjalddaga sem ætti að öllu jöfnu ekki að verða til þess að ávöxtunarkrafan hækki. Þar að auki hefur ávöxtunarkrafa bréfanna hækkað um rúmlega hálft prósentustig á síðustu tólf mánuðum.

Aðstæður á markaði ráða miklu

En hvað er það sem hefur valdið þessari hækkun bæði á áhættuálaginu og ávöxtunarkröfu á  löngum óverðtryggðum bréfum á sama tíma og verðbólguvæntingar markaðsaðila hafa einungis hækkað lítillega auk þess sem stýrivextir hafa lækkað. Ein möguleg ástæða er sú að áhættuálag á skuldabréfamarkaði hafi einfaldlega hækkað og álagið endurspegli ákveðna óvissu á markaði.  Var það ein af skýringum Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, að áhættuálag hefði verið óvenjulágt og hefði hækkað meðal annars vegna „normalíseringar“ í líftímaálagi á skuldabréfamarkaði í tengslum við alþjóðlega þróun sem væri að einhverju leyti komin til Íslands. Kom þetta fram í svari Þórarins við spurningu um aukið áhættuálag eftir stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans í síðustu viku. Sé líftímaálag á bandarískum, þýskum og japönskum ríkisskuldabréfum skoðað með því að bera saman muninn á ávöxtunarkröfu 10 og 2 ára skuldabréfa kemur hins vegar í ljós að erfitt er að sjá þessa þróun það sem af er ári. Frá áramótum hefur líftímaálag dregist saman um 0,3 prósentustig í Bandaríkjunum en þar hefur álagið dregist saman um heilt prósentustig frá ársbyrjun 2017 og er nú aðeins 0,2 prósentustig. Í Þýskalandi hefur álagið dregist lítillega saman frá áramótum á meðan það hefur nánast staðið í stað í Japan. Að mati sérfræðinga á skuldabréfamarkaði sem Viðskiptablaðið ræddi við má því frekar rekja ástæðu hækkunarinnar til misvægis í framboði og eftirspurn á skuldabréfamarkaði.

„Ég held að það sé varasamt að túlka verðbólguálag á markaðnum núna alfarið sem summu af verðbólguvæntingum og óvissuálagi eins og oft er gert,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. „Það virðist vera tiltölulega takmörkuð eftirspurn á markaði eftir löngum óverðtryggðum bréfum og maður getur sagt að það séu vaxandi líkur á að aðstæður á markaði séu að spila hlutverk í að ýta þessu álagi upp. Það er eðlilegt að eitthvert álag sé til staðar þar sem það endurspeglar ákveðna óvissu um ávöxtunina á óverðtryggðu bréfunum. Ég held hins vegar að það sé til staðar þriðji þátturinn sem kemur ofan á þetta tvennt og það er hreinlega misvægi milli framboðs og eftirspurnar á skuldabréfamarkaði. Eftir síðustu stýrivaxta-ákvörðun vildu menn í Seðlabankanum túlka þetta sem aukningu á óvissuálagi en ég held að þeir ættu að leggja við þriðja partinn sem væru þá markaðsaðstæður,” segir Jón.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .