Kostnaður bandaríska símafyrirtækisins AT&T við markaðssetningu á Lumia 900 símanum frá Nokia nam um 150 milljónum dala, sem þýðir að kostnaður á hvern seldan síma nam um 450 dölum, eða um 57.000 krónum.

Síminn var upphaflega seldur á 99 dali með samningi við AT&T, en verðið hefur nú verið lækkað í 49 dali. Selst hafa um 330.000 eintök af símanum í Bandaríkjunum.

Í frétt The Register segir að AT&T hafi fengið um 32 milljónir dala til baka í gegnum sölu á símtækjum og þá beri að hafa í huga að afskrifa má markaðskostnaðinn yfir lengri tíma.

Hvernig sem á það er litið sé hins vegar erfitt að sjá að finnski snjallsíminn hafi slegið í gegn í Bandaríkjunum.