Útlán Íbúðalánasjóðs í janúar voru þau minnstu í að minnsta kosti níu ár, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Útlánin námu alls 960 milljónum króna, sem jafngildir 26% samdrætti frá sama mánuði í fyrra. Þar af námu almenn útlán 890 milljónum, en önnur útlán námu 70 milljónum króna. Uppgreiðslur lána námu um 1,5 milljörðum í janúar, og voru því talsvert umfram útlán líkt og oft hefur verið uppi á teningnum undanfarið.

Hlutdeild ÍLS í nýjum útlánum hefur minnkað mikið undanfarin misseri. Má þar nefna að útlán sjóðsins námu u.þ.b. 1,3 milljörðum króna að meðaltali í hverjum mánuði á síðasta ári. Árið 2011 var þessi tala hins vegar 2,0 milljarðar króna, og árið 2007 voru mánaðarleg útlán ÍLS tæplega 5,7 milljarðar króna.

Á sama tíma hafa ný íbúðalán farið vaxandi á heildina litið. Samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands nam heildarfjárhæð nýrra íbúðalána að jafnaði 5,5 milljörðum í mánuði hverjum á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs, en árið 2011 voru ný útlán í mánuði hverjum tæplega 4 milljarðar. Segir í Morgunkorninu að samkeppnisstaða ÍLS sé erfið þessa dagana, enda bjóði lífeyrissjóðir margir hverjir hagstæðari lánskjör á verðtryggðum íbúðalánum auk þess sem margir lántakendur kjósa óverðtryggð íbúðalán sem eru aðeins í boði hjá viðskiptabönkunum.