*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 21. ágúst 2014 11:25

Markaðshlutdeild Icelandair og WOW air dregst saman

Á meðan markaðshlutdeild íslensku félaganna dregst saman auka erlend félög umsvif sín um Keflavíkurflugvöll.

Ritstjórn

Markaðshlutdeild flugfélaganna Icelandair og WOW air dregst saman milli ára í vetur Markaðshlutdeild WOW fer úr 15% í 12% í vetur og lækkar markaðshlutdeild Icelandair, sem er sú stærsta í flugi um Keflavíkurflugvöll, heldur milli ára. Þetta kemur fram í frétt á vef Íslandsbanka.

Áfangastaðir Icelandair verða að mestu þeir sömu og síðasta vetur. Miðað við úthlutuð stæði mun sætum hjá Icelandair fjölga mest hlutfallslega á flugleiðunum til London – Gatwick, Toronto, Glasgow og Denver. Einnig virðist einhver vöxtur verða á flugi til Frankfurt, Helsinki, München, París og Sanford Flórída. Félagið virðist vera að bregðast við aukinni samkeppni með fækkun á flugum til Kaupmannahafnar og Bergen.

Framboð áfangastaða verður óbreytt hjá WOW air í vetur miðað við sama tímabil á síðasta ári. Félagið mun auka framboð verulega til Berlínar, eða um 30%, en draga framboð saman um nær sömu prósentu frá Kaupmannahöfn. Framboð til London – Gatwick mun einnig dragast saman um 12% og um 3% til Parísar. Því eru bæði Icelandair og WOW air að draga úr framboði til Kaupmannahafnar.

Á meðan markaðshlutdeild íslensku félaganna dregst saman auka erlendu flugfélögin umsvif sín. Framboð Norwegian og Easyjet eykst mest milli ára sé horft til úthlutaðra stæða. Norwegian hefur fengið úthlutað stæðum fyrir flug til Bergen, Osló og London, en yfir sama tímabil í fyrra flaug flugfélagið aðeins til Osló. Icelandair virðist hafa brugðist við samkeppninni um flugleiðina til Bergen með því að draga verulega úr framboði sínu á flugi þangað. Easyjet hefur fengið úthlutað stæðum fyrir flug til Belfast, Bristol, Edinborg, London – Luton og Manchester, þar af er Belfast eina nýja flugleið félagsins. Flugfélagið eykur þó tíðni flugleiða umtalsvert. Flug til Bristol og Edinborg eykst um tæp 50%, flug til London – Luton, sem er stærsta flugleið félagsins, eykst um 60% og flug til Manchester um 30%.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is