*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Innlent 20. nóvember 2018 13:35

Markaðshlutdeild Samkaupa tvöfaldast

Með kaupum á tólf verslunum Basko mun markaðshlutdeild Samkaupa á dagvörumarkaði hækka í 10-15%.

Ritstjórn
Ómar Valdimarsson, forstjóri Samkaupa.
Haraldur Guðjónsson

Markaðshlutdeild Samkaupa á dagvörumarkaði á höfuðborgarsvæðinu mun tæplega tvöfaldast með kaupum Samkaupa á 12 verslunum Basko. Markaðshlutdeild fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu mun hækka úr 5-10% í 10-15%, samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem samþykkt hafa kaupin.

Fyrir kaupin voru Samkaup fjórða stærsti dagvörusalinn á höfuðborgarsvæðinu og Basko fimmti, þar sem umsvif Festa, Haga og Costco eru meiri á höfuðborgarsvæðinu.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir jafnframt að til hafi staðið að Samkaup keypti verslanir Iceland í Reykjanesbæ og á Akureyri. en félögin féllu frá því að svo stöddu. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins hafi einkum beinst að áhrifum á samkeppni í þessum bæjarfélögum. Félögin hafa þó ekki hætt við kaupin á Iceland verslununum tveimur því í tilkynningu frá fyrirtækjunum um helgina kom fram að ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Samkaupa á verslunum Iceland í Reykjanesbæ og á Akureyri væri að vænta á næsta ári.

Verslanirnar sem Samkaup hafa fest kaup á eru 10-11 verslanir í Lágmúla, Grímsbæ, Hjarðarhaga, Laugalæk, Borgartúni og Hafnarfirði og verslanir Iceland í Glæsibæ, Engihjalla, Vesturbergi og Arnarbakka og háskólaverslanirnar í Háskóla Íslands og Háskóla í Reykjavík.

Stikkorð: 10-11 Samkaup Basko