Markaðshlutdeild Símans hefur dregist hlutfallslega meira saman en annarra leiðandi fjarskiptafyrirtækja á Norðurlöndunum, Eistlandi og Litháen á síðustu árum.

Árið 2006 var markaðshlutdeild Símans 60% og var hún þá 6-19% hærri en sambærilegra fyrirtækja hjá hinum Norðurlöndunum, en ekki eru til mælingar fyrir Eistland og Litháen frá þeim á tíma.

Árið 2012 var hlutdeild Símans komin niður í 37% og var hún þá lægst allra leiðandi fjarskiptafyrirtækja í samanburðarlöndunum en hlutur þeirra var á bilinu 39-51% og var það Telenor í Noregi sem var með mestu markaðshlutdeildina.

Í engum af samanburðarlöndum dróst markaðshlutdeild eins mikið saman og hjá Símanum að því er fram kemur í skýrslu sem fjarskiptastofnanir á Norðurlöndunum, Eistlandi og Litháen tóku saman um fjarskiptanotkun síðustu ára.