Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings segir að sannað sé að ákærðu, Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, sem voru starfsmenn eigin viðskipta bankans, hefðu framkvæmt markaðsmisnotkunina sem getið er um í ákæru málsins.

Á sama hátt sé það sannað að það hafi verið gert að undirlagi Ingólfs Helgasonar, forstjóra Kaupþings á Íslandi, og Einars Pálma Sigmundssonar, forstöðumanns eigin viðskipta bankans.

Varðandi hlut Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar segir dómurinn að ekki sé óvarlegt að telja sannað, þrátt fyrir neitun þeirra, að markaðsmisnotkunin hafi einnig verið að undirlagi þeirra. „Að mati dómsins er mjög ótrúverðugt að æðstu stjórnendur bankans hafi ekki verið kunnugt um hvernig deildin vann,“ segir í niðurstöðum dómsins.

Undirmenn sem tóku við fyrirmælum yfirmanna

Ingólfur Helgason hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í málinu. Hreiðar Már og Sigurður voru einnig sakfelldir, en Hreiðari ekki gerð frekari refsing vegna dóms sem hann hlaut í Al Thani málinu, en Sigurður var hins vegar dæmdur í eins árs fangelsi til viðbótar fjögurra ára fangelsisdómi í því máli.

Einar Pálmi hlaut tveggja ára fangelsisdóm, en Birnir Sær og Pétur Kristinn átján mánaða fangelsisdóma, en refsing þeirra allra er hins vegar skilorðsbundin. Um ástæður þess segir í dómi héraðsdóms að af gögnum málsins verði ráðið að starfsemi deildar eigin viðskipta hafi verið komin í það horf sem lýst hefur verið áður en þeir hófu störf hjá bankanum. Þá hafi Birnir og Pétur verið undirmenn sem tóku við fyrirmælum frá öðrum varðandi störf sín.

Dómurinn segir að einnig sé til þess að líta, að þrátt fyrir að hafa verið yfirmaður deildarinnar, virtist staða Einars Pálma innan hennar hafa verið svipuð stöðu Birnis Sæs og Péturs Kristins. Einnig sé langt síðan atburðirnir áttu sér stað, og því hafi verið rétt að fresta fullnustu refsinga þeirra.

Hér má lesa dóminn í heild sinni.