Fjölskylda tónlistarmannsins Bob Marley hyggst markaðssetja kannabisvörur undir nafni hans og verður þar um að ræða fyrsta alþjóðlega vörumerkið á markaðnum. BBC News greinir frá þessu.

Vörulínan mun kallast Marley Natural þar sem boðið verður upp á áburð, rakakrem og fleiri vörur sem innihalda munu kannabis. Vörurnar eru í þróun hjá Privateer Holdings sem staðsett er í Washington-ríki í Bandaríkjunum, og er ætlunin að hefja markaðssetningu í Bandaríkjunum á næsta ári.

Bob Marley lést úr krabbameini árið 1981 og var ötull talsmaður lögleiðingar á neyslu kannabis. „Pabbi hefði verið glaður að sjá fólk sýna lækningarmætti kannabisplöntunnar skilning,“ segir Cedelia Marley, dóttir tónlistarmannsins.