Kyriakos Mitsotakis varð sigursæll í kosningum um formannsstöðu stjórnarandstöðuflokksins Nýtt lýðræði, sem á grísku útleggst sem Nea Demokratia. Kyriakos er sonur fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands, Konstantinos Mitsotakis, og er af mörgum talinn vera arftaki Nýs lýðræðis, en faðir hans var einnig heiðursforseti flokksins um tíð.

Mótframbjóðandi Kyriakosar, Vangelis Meimarakis, hlaut 48% atkvæða, meðan Mitsotakis hlaut 52% atkvæða. Helstu greinendur höfðu búist við því að Vangelis myndi sigra kosningarnar, en hann er rótgrónari í flokknum og hefur sér til stuðnings helstu valdamenn innan hans.

Mitsotakis er þeirrar skoðunar að auka eigi umsvif frjálsa markaðarins í hagkerfi Grikklands, og er því hugmyndafræðilega séð á öndverðum meiði við núverandi ríkisstjórnarflokk Syriza. Mitsotakis hét því að endurbyggja íhaldsflokkinn, sem er haldinn sundrungu, og veita stjórnarflokk Syriza mikla pólitíska andstöðu.

Syriza hefur Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, að leiðtoga, og er eins konar kosningabandalag sósíaldemókrata, andkapítalista, miðjumanna og marxískra-lenínista. Flokkurinn var stofnaður árið 2004 en hefur haft mest áhrif á síðustu tveimur árum eftir að hafa verið kosinn til valda með 26,5% fylgi fram yfir 22,7% fylgi Nýs lýðræðis.