Nokkuð hefur verið fjallað um tekjur og fjárhag Ríkisútvarpsins að undanförnu og þá ekki síst áhrif samkeppnisreksturs þess á aðra íslenska fjölmiðla. Þeir hafa sem kunnugt er flestir lapið dauðann úr skel frá hruni.

Þegar litið er á tölur Hagstofunnar um hlutfallslegar auglýsingatekjur Ríkissjónvarpsins undanfarin ár verður ekki séð að efnahagsþrengingar undanfarins áratugar hafi truflað það neitt. Öðru nær, þær jukust lítillega í fyrirhrunsbólunni en það er á eftirhrunsárunum, sem RÚV nær yfirburðum á markaði.