Ágústa Hrund Steinarsdóttir, markaðsstjóri Wow air, hefur hætt störfum. Flugfélagið er jafnframt að skipta um auglýsingastofu. Wow air vann áður með Hvíta húsinu.

Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag og rifjar upp að tiltölulega stutt sé síðan Ágústa tók til starfa sem markaðsstjóri og skrifað var undir hjá nýrri auglýsingastofu. Það var gert í maí í fyrra.

Haft er eftir Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda Wow air, að á síðustu tveimur mánuðum hafi ellefu nýir starfsmenn hafið störf hjá flugfélaginu. Slíkum vexti fylgi ávallt áherslu- og skipulagsbreytingar.

„Eitt af því sem við höfum undanfarið ár unnið markvisst að er að taka sjálf yfir mikið af markaðsstarfinu. WOW air tók yfir útgáfuna og vinnsluna á WOW Magazine sem var áður gefið út af útgáfufélaginu Birtingi og einnig hefur öll leitarvélabestun og netvinnsla flust inn til okkar,“ segir Skúli í skriflegu svari til Morgunblaðsins.