Markaðsstofa ferðamála á Norðurlandi fagnar þeim áformum Hr. Huang Nubo að standa fyrir nýrri og stórhuga uppbyggingu í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Öll ný fjárfesting í ferðaþjónustu sem fellur að lögum og reglum og fylgir markmiðum um sjálfbæra nýtingu og umhverfisvæna ferðaþjónustu, fellur að markmiðum ferðamálaáætlunar og stefnu ferðaþjónustunnar. Ef áform Hr. Nubo ganga eftir mun uppbyggingin skapa fjölmörg ný tækifæri og efla þá ferðaþjónustu sem fyrir er á svæðinu, fyrir utan að hafa mjög jákvæð áhrif á búsetuskilyrði og samgöngur á Norð-austurlandi, þ.á.m. þau áform Norðlendinga að stórefla beint flug inn á Akureyrarflugvöll frá helstu markaðssvæðum okkar erlendis.

Í tilkynningu frá Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi segir að á þessu afmarkaða ferðamannasvæði, Norðurlandi, sem státi af fullbúnum millilandaflugvelli, hafi á síðustu árum orðið gríðarleg uppbygging í fjölþættri ferðaþjónustu. "Grundvöllur þessarar uppbyggingar er stóraukið framboð á afþreyingu, auk þess að hótelum, gistihúsum og veitingahúsum á Norðurlandi hefur fjölgað mikið á tiltölulega stuttum tíma. Ferðaþjónusta á Norðurlandi, og raunar víðar á þeim svæðum sem liggja fjærst suðvesturhorninu, hefur að mörgu leyti liðið fyrir þá staðreynd að yfirgnæfandi meirihluti ferðamanna kemur til landsins um Keflavíkurflugvöll og dvelur þar af leiðandi mestmegnis á sunnan- og vestanverðu landinu. Til samanburðar má geta þess að hlutdeild Akureyrarflugvallar í þessum hópi ferðamanna er innan við hálft prósent. Því má segja að þeirri auðlind sem ferðafólk er í atvinnulífi landsmanna sé misjafnlega skipt milli landshluta. Þetta hefur bein áhrif á vaxtarmöguleika greinarinnar frá einu svæði til annars, eins og allar tölur og rannsóknir benda til.

Fram hefur komið að þeir sem lenda í Keflavík dvelja að meðaltali 1,8 nótt á Norðurlandi, en þeir sem lenda á Akureyri dvelja að meðaltali 7,3 nætur á Norðurlandi. Undanfarin misseri hefur ferðaþjónustan á Norðurlandi beitt sér í auknum mæli fyrir markaðssetningu Norðurlands og Akureyrarflugvallar fyrir erlend flugfélög, svo ferðaþjónusta á Norðurlandi geti dafnað og fest sig betur í sessi en verið hefur á síðustu áratugum. Það er eftir miklu að slægjast. Í skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála kemur fram að gestir sem komu með beinu flugi um Akureyravöll voru að eyða að meðaltali rúmum 29.000 krónum á sólarhring. Svipaðar rannsóknir benda til þess að ein farþegaþota með 160 farþega sem dvelja í eina viku á Norðurlandi skilji eftir sig á bilinu 35 til 38 milljónir króna í landinu. Og enn má fara með tölur; ef aðeins er horft til Húsavíkur er talið að velta í bænum í tengslum við ferðaþjónustu sé um 2 milljarðar á ári.

Augljóst er af svörum þeirra erlendu ferðamanna, sem flugu beint til Akureyrar sumarið 2009 og 2010, að margir þeirra eru ekki síður spenntir að koma til þessa landshluta á öðrum árstíðum en yfir hásumarið. Í skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála segir orðrétt um þetta efni: „Þegar spurt var hvort farþegarnir hefðu áhuga á að heimsækja Norðurland á öðrum árstíma en sumri kom í ljós að flestir höfðu áhuga á því. Í ljós kom að 42% höfðu áhuga á að koma að vetri, 41% svarenda hafði áhuga á að koma að vori og 37% að hausti. Tæplega 32% svarenda höfðu ekki áhuga á að koma aftur á Norðurland á öðrum árstíma.“ Þessi áhugi erlendu ferðamannana á vetrarferðamennsku á Íslandi kemur ekki á óvart, enda mælist mikil ánægja þeirra með sumarferðir um landið. Nær allir, eða 93% útlendinganna meta heildarupplifun sína sem frábæra eða yfir meðallagi, samkvæmt könnun sem gerð var meðal þeirra og birt er í skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála. Einungis 7% töldu upplifun sína vera í meðallagi og 0,3% undir meðallagi. Enginn mat upplifun sína af Norðurlandi slæma. Áberandi er af svörum þessara ferðalanga að þeir eru einkum og sér í lagi komnir til Íslands til að upplifa náttúruna – og það er auðvitað hægt jafnt að vetri sem sumri. Ferðamynstrið er annars áberandi: „Þeir staðir sem standa uppúr af þeim sem fólk heimsækir eru austan Eyjafjarðar í Mývatnssveit og Þingeyjarsýslum,“ segir í skýrslunni – og enn fremur: „ Hvað varðar sérstöðu Norðurlands er kemur að náttúru má ráða að fossarnir Goðafoss og Dettifoss skapa sérstöðu ásamt náttúrufari Mývatnssveitar.“ Og þegar möguleikar til afþreyingar eru skoðaðir sérstaklega kemur í ljós að þar er af nógu að taka; ferðir í sundlaugar eða jarðböð eru vinsælasta afþreyingin, en 72% höfðu nýtt sér þann möguleika. Hvalaskoðun kemur þar á eftir með 53%, áhugi á söfnum mælist 37%, gönguferðir með leiðsögn hrífa 33%, hestaferðir 32%, fuglaskoðun 29%, ýmiss konar hátíðir 14%, jeppaferðir 13% og sjóstöng 9%. Taflan yfir vinsælustu ferðamannastaði þeirra erlendu ferðamanna sem fljúga beint á Akureyri er annars merkileg: Það sem vekur sérstaka athygli rannsakenda er að þeir sem koma með flugi til Akureyrar fara margir hverjir, eða 48 prósent, ekkert út fyrir Norðurland, og ef einhverjir aðrir landshlutar eru sóttir heim þá er það einna helst Austurland. Almennt má þó ljóst vera af þessari rannsókn, sem og öðrum sambærilegum, að fólk dvelur á og skoðar þá landshluta sem næst flugvelli eru. Ályktun rannsakenda er því þessi: „Svo virðist sem fólk sé töluvert bundið nærsvæði flugvallar og rennir það stoðum undir þær hugmyndir að hægt sé að búa til nýjan áfangastað á Íslandi á Norður- og Austurlandi með beinu flug," segir í tilkynningu.