Ný vefsíða, NORA Region Trends, var opnuð í vikunni en þar er hægt að lesa fréttir ásamt tölfræði- og markaðsupplýsingum frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og strandsvæðum Noregs. Þetta kemur fram á vef Byggðastofnunar.

Á vefsíðunni á að viðhalda og uppfæra þekkingu um hagkerfi og stjórnmál á NORA-svæðinu sem er Norræna Atlantssamstarfið. Daglega eiga að koma fréttir ásamt markaðsupplýsingum um auðlindir og hráefni svæðisins eins og t.d. gas, járn, ál, lax, þorsk og fleira.

Á vefsíðu Byggðastofnunar segir að þetta sé í fyrsta skipti sem stjórnmálamenn, starfsmenn hins opinbera og í einkageira, almennir borgarar og fjölmiðlafólk geti fundið upplýsingar um atvinnulíf og stjórnmál í þessum löndum. Slóðin er noraregiontrends.org .