Ríkisvæðing fyrirtækja hefur ekki verið á dagskrá stjórnvalda um langa hríð og því ráku margir upp stór augu þegar ríkið festi á dögunum kaup á 38% hlut Arion banka í fyrirtækinu Farice ehf. Við kaupin og eftir að Landsvirkjun framseldi ríkinu sinn eignahlut er Farice alfarið komið í eigu ríkisins. Eignarhald ríkisins er þó hvorki til marks um nýja né breytta stefnu stjórnvalda heldur tengist breyttri skilgreiningu á starfsemi Farice í samræmi við stefnu sem er bæði gömul og rótgróin.

Fjarskipti og nettenging landsins við umheiminn eru nú skilgreind sem hluti af grunninnviðum samfélagsins en um árabil hafa þessir innviðir verið í höndum einkahlutafélagsins Farice ehf. Nýtt eignarhald á Farice skapar að mati Samtaka iðnaðarins tækifæri til þess að gera breytingar á rekstri og skipulagi félagsins og samhliða auka öryggi og styrkja þessa grunninnviði hagkerfisins. Löng hefð og þverpólitísk samstaða er fyrir því að grunninnviðir samfélagsins skuli vera í eigu hins opinbera.

Mikilvægi nettenginga og fjarskipta við umheiminn á öllum sviðum samfélagsins hefur vaxið hratt undanfarna áratugi og fyrir vikið hefur íslenska ríkið ákveðið að skilgreina fjarskiptasambönd til útlanda sem hluta af grunninnviðum samfélagsins. Í dag eru þessir innviðir nær alfarið í höndum Farice sem á og rekur gagnastrengina FARICE-1 og DANICE og er langstærsti söluaðili í samböndum milli Íslands og útlanda. Farice og gagnatenging við útlönd hafa ekki verið áberandi í umræðunni undanfarin ár enda lítið sem ekkert borið á truflunum á netsambandi við útlönd síðan FARICE-1 var tekinn í notkun árið 2004. Sömuleiðis hafa áhyggjur af öryggi tengingarinnar ekki farið hátt eftir að DANICE var lagður fimm árum síðar.

Fjárhagur Farice fór illa í Hruninu og eignaðist Arion banki hlut sinn í félaginu vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar og síðan þá hefur félagið barist við fortíðarvanda frekar en að marka nýja stefnu félagsins til framtíðar.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, segir stefnubreytinguna tímabæra og að breytt eignarhald feli í sér tækifæri til að styrkja innviðina og efla markað með gagnatengingar. „Við fögnum þessu nýja eignarhaldi og sjáum í því tækifæri til að efla markað með gagnatengingar. Fyrirkomulag þessara mála hefur um margt verið óvenjulegt hér á landi og ekki gallalaust þrátt fyrir að strengirnir hafi þjónað okkur vel undanfarin ár. Aðalmálið er að Ísland er að tapa samkeppnisforskoti í gagn- versiðnaði sökum ósamkeppnishæfra gagnatenginga.

Þetta var m.a. niðurstaða skýrslu sem KPMG gerði um iðnaðinn og starfshóps sem fjallaði um gagnaver á vegum stjórnvalda á síðasta ári. Staða tenginga er ein af helstu hindrunum fyrir uppbyggingu öflugs gagnaversiðnaðar samkvæmt báðum þessum úttektum. Verð á bandvídd er hátt í samanburði við meginland Evrópu. Farice selur fjarskiptafélögum innanlands tengingar í heildsölu en hefur einnig verið í smásölu til viðskiptavina gagnavera. Þetta þýðir að tvöföld verðskrá er hér í gangi og verðmyndunin því ógagnsæ sem er óheppilegt þegar um félag í einokunarstöðu er að ræða. Til viðbótar við hátt verð og einokun einkennir ófullnægjandi öryggi stöðu gagnatenginga við útlönd.

Gagnastrengir eru dýrir og lagning þeirra og viðhald er áhættusöm fjárfesting sem þýðir jafnframt að áhætta ríkisins vegna þeirra getur verið talsverð. Þessa áhættu höfum við séð raungerast hér á landi m.a. í þeim mikla umframkostnaði sem fallið hefur á ríkið vegna Farice síðastliðinn áratug.“ Sigríður segir að með tiltölulega einföldum breytingum á bæði rekstri og hlutverki Farice sé hægt að stoppa upp í helstu gallana sem standa samkeppnishæfni okkar fyrir þrifum. „Með einfaldri breytingu á hlutverki félagsins, eins og að Farice fari úr því að selja gagnatengingar yfir í að selja eða leigja nýtingarrétt á strengjum, má slá margar flugur í einu höggi. Með því að fela markaðinum og fjarskiptafyrirtækjum sölu á tengingum hverfur bæði ógagnsæið og hin tvöfalda verðskrá sem nú er við lýði. Auk þess sem samkeppni stuðlar að lægra verði og betri þjónustu fyrir almennan notenda þá hafa fjarskiptafélög meiri hvata til að stækka markaðinn og vaxa.

Með því að breyta umgjörð og hlutverki Farice getur ríkið jafnframt lækkað fjármögnunarkostnað og minnkað áhættu í frekari fjárfestingum. Ríkið gæti t.d selt aðgang að nýjum streng áður en framkvæmdir við hann hefjast, en þegar tekjur af nýjum streng eru fyrirfram tryggðar má draga verulega úr fjárhagslegri áhættu við framkvæmdina. Nýr strengur myndi margfalda öryggi gagnatenginga við umheiminn og styrkja stöðu okkar verulega í alþjóðlegri samkeppni um gagnaver. Nýtt og skýrt eignarhald á Farice felur í sér tækifæri til þess að ráðast í slíkar breytingar sem eru tiltölulega einfaldar og auðveldar í framkvæmd en gætu skilað miklum ávinningi. Við bindum vonir við að stjórnvöld grípi þetta tækifæri því núna er lag,“ segir Sigríður Mogensen að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .