Rífandi gangur hefur verið í kauphöllinni í dag í kjölfar niðurstöðu kosninganna. Öll skráð félög á aðalmarkaði, fyrir utan Sýn, hafa hækkað í viðskiptum dagsins og markaðsvirði þeirra aukist um samanlagt tæplega 80 milljarða króna.

Mesta hækkunin það sem af er degi er hjá Brim, 8,18%, og Síldarvinnslunni um rúm 7%. Heildarvirði fyrrnefnda félagsins hefur því aukist um 8,8 milljarða króna í dag en hjá hinu síðarnefnda er hækkunin rúmlega átta milljarðar. Þá hefur Hampiðjan, sem skráð er á First North, hækkað um 9,28% eða um 4,5 milljarð króna að markaðsvirði.

Arion banki hefur hækkað um 3,6% í viðskiptum dagsins en sú hækkun nemur rétt tæpum tíu milljörðum króna. Kvika hefur síðan hækkað um 5,63% en þar er á ferð ríflega 6,2 milljarða hækkun. Íslandsbanki, sem enn er að meirihluta í eigu ríkisins, hefur hækkað um 3,5% en það er hækkun um 8,2 milljarða króna.

Virði smásölurisanna Festi og Haga hefur hækkað um á þriðja milljarð hjá hvoru félagi og þá hefur virði Eimskipa hækkað um rúmlega 2,8 milljarða.

Heildarvirði skráðra félaga á markaði er nú rúmlega 2.372 milljón krónur en voru í upphafi dags rúmlega 2.292 milljón krónur.