Hlutabréfaverð Icelandair lækkaði um tæp 14% í viðskiptum dagsins er dagslokagengi félagsins var 1,11 krónur. Markaðsvirði félagsins lækkaði um 7,2 milljarða í viðskiptum dagsins og nam 45,4 milljörðum við lokun markaða.
Um 215 einstök viðskipti voru með bréf félagsins í dag. Stærstu viðskiptin fóru í gegn rétt eftir hádegi er 37.966.334 hlutir skiptust um hendur á genginu 1,08 krónur. Heildarvelta nam 338 milljónum króna.
Fyrir viðskipti dagsins hafði gengi flugfélagsins verið á miklu skriði og hækkað um rúm 24% síðastliðinn mánuð. Dagslokagengi Icelandair var 1,28 krónur í gær en félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær.
Icelandair hagnaðist um 12,9 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 1,65 milljörðum króna. Til samanburðar hagnaðist félagið um 0,6 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.
Heildartekjur flugfélagsins á öðrum fjórðungi jukust um 13% milli ára og námu 59,1 milljarði króna.
Farþegatekjur jukust um 11% milli ára og námu milljörðum króna, og hafa aldrei verið meiri á öðrum fjórðungi hjá flugfélaginu.
EBIT-hagnaður Icelandair nam 775 þúsund dölum á fjórðungnum samanborið við 3,3 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.
Hlutabréfaverð Play lækkaði um 4,6% í örviðskiptum í dag og var dagslokagengi félagsins 0,62 krónur á hlut.
Hlutabréfaverð Símans hækkaði um rúm 4% í dag en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá voru nokkur stór viðskipti með bréf fjarskiptafélagsins um hádegisbilið sem ýttu genginu upp á við.
Heildarvelta með bréf Símans var 687 milljónir króna og var dagslokagengið 13,75 krónur.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,17% og var heildarvelta á markaði 3,6 milljarðar.