Markaðsvirði Marel, stærsta félagsins í íslensku kauphöllinni, hefur lækkað um 270 milljarða króna frá því að markaðsvirði félagsins náði hápunkti í byrjun september í 734 milljörðum króna en er nú 463 milljarðar króna.

Frá hápunktinum í byrjun september hefur gengi Marel lækkað úr 970 krónur á hlut niður í 610 krónur á hlut eða um 37%.

Í viðskiptum dagsins í kauphöllinni voru mest viðskipti með Marel, upp á 1,1 milljarð króna, en bréf Marel hækkuðu um 0,5% í viðskiptum dagsins.

Almennt hækkuðu bréf í Kauphöllinni í dag í 4,2 milljarða veltu í 346 viðskiptum. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1% í viðskiptum dagsins en hefur nú lækkaði um 10% undanfarinn mánuð og um 20% frá áramótum.

Síminn hækkaði mest allra eða um 3,5% í viðskiptum dagsins, Hagar um 2,3% og Eimskip um 2%.  Festi, Arion, Icelandair og Síldarvinnslan hækkuðu öll um 1,9% og Reitir og Iceland Seafood um 1,6% í viðskiptum dagsins.

Bréf Icelandair standa nú í 1,62 krónum á hlut en hjá hinu flugfélaginu Play er gengið í 19,35 krónur á hlut.

Hlutabréfaverð í Kviku banka lækkaði um 2,94% í viðskiptum dagsins í Kauphöll Íslands, mest allra félaga á aðalmarkaði í 324 milljóna viðskiptum. Lækkunin kom að megninu til síðdegis í dag eftir að tilkynnt var um að Marínó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, hefði selt hluti í félaginu fyrir um 67 milljónir króna á genginu 20,4 krónur á hlut. Gengi bréfa Kviku hefur lækkað um 26% það sem af er ári, sem er það þriðja mesta meðal skráðra félaga og stendur nú í 19,8 krónum á hlut.