*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 25. október 2021 16:11

Markaðsvirði Origo nálgast 30 milljarða

Hlutabréfaverð Origo hefur hækkað um 88% í ár og alls um 243% frá því í mars á síðasta ári.

Ritstjórn

Hugbúnaðarfyrirtækið Origo leiddi hækkanir á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréfaverð Origo hækkaði um 3,8% í 671 milljónar veltu og stendur nú í 68 krónum á hlut, það hæsta frá sögu félagsins. Gengi Origo hefur hækkað um 88% í ár og alls um 243% frá því í mars á síðasta ári. Markaðsvirði Origo nemur nú 29,6 milljörðum króna.

Marel fylgdi þar á eftir í 1,7% hækkun í 884 milljóna viðskiptum og stendur gengi félagsins nú í 826 krónum á hlut. Marel hafði fyrir daginn lækkað nokkuð á undanförnum vikum eða alls um 16,5% frá lok ágústmánaðar þegar gengi félagsins náði sínum hæstu hæðum í 973 krónum.

Hlutabréfaverð Icelandair heldur áfram að hækka og hefur nú hækkað um fjórðung á einum mánuði. Flugfélagið tilkynnti á miðvikudaginn síðasta um 2,5 milljarða hagnað á þriðja ársfjórðungi en opnun Bandaríkjanna fyrir evrópska ferðamenn hefur haft jákvæð áhrif fyrir flug yfir Atlantshafið.

Gengi Símans hækkaði um 0,8% í dag en félagið tilkynnti um helgina að gengið hafi verið frá kaupsamningi vegna sölu á Mílu til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian.

Kvika tilkynnti í gærkvöldi um samkomulag vegna mögulegra kaupa á breska lánafyrirtækinu Ortus Secured Finance. Hlutabréfaverð bankans hækkaði í fyrstu viðskiptum dagsins og náði 28 krónum á hlut en endaði daginn í 27,4 krónum, óbreytt frá lokagenginu á föstudaginn síðasta.

Íslandsbanki náði í dag sínu hæsta gengi frá skráningu í júní og er gengi félagsins nú komið í 126 krónur á hlut eða um 59,5% yfir genginu í almennu hlutafjárútboði félagsins. VÍS náði einnig nýjum hæðum í 21,6 krónum á hlut eftir 0,9% hækkun í dag en tryggingarfélagið hefur alls hækkað um 75% á einu ári.