Hlutabréf rafbílaframleiðandans Tesla hækkaði um 11,2% í viðskiptum gærdagsins og stóðu bréfin í 1.836 dollurum hvert í lok dags. Ekki er nein augljós skýring fyrir hækkuninni en þau hafa aldrei verið hærri. Hlutabréf félagsins hafa hækkað um 2,7% fyrir opnun markaða og standa því í 1.886 dollurum.

Markaðsvirði félagsins hækkaði um ríflega 34 milljarða dollara, vel umfram markaðsvirði Ford. Lægst fóru bréfin í 361 dollara á þessu ári í mars en bréfin hafa hækkað um 338% frá upphafi árs.

Sjá einnig: Tesla skiptir hlutabréfum í fimm hluta

Þrátt fyrir að engar tilkynningar frá félaginu hafi borist, sem gæti skýrt hækkunina, hafa einhverjir greinendur hækkað virði sitt fyrir Tesla. Sú breyting á að koma meðal annars vegna spá um meiri eftirspurn Kínverja en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Tesla framleiddi ríflega 360 þúsund bíla árið 2019 og stefnir á framleiða yfir 500 þúsund bíla á þessu ári. Til að setja töluna í samhengi seldi Ford ríflega 2,4 milljónir bíla í Bandaríkjunum árið 2019. Markaðsvirði Tesla er ríflega 12 sinnum meira en markaðsvirði Ford.