Við lokun markaða í gær stóð gengi bréfa Icelandair Group í 15,9 krónum en greiningarfyrirtækið IFS verðmetur félagið á 23,5 krónur hlutinn.

Í fyrra mat félagið að verðmæti bréfa félagsins samsvaraði genginu 28,9 krónur en nú hefur fyrirtækið lækkað verðmat sitt eins og áður segir, þó það sé enn 48% yfir markaðsvirðinu.

Segja bréfin verulega undirverðlögð

Segir í verðmatinu að matslækkunina megi rekja til að vænta megi minni hagnaðar hjá Icelandair en væntingar stóðu til að því er fram kemur í Morgunblaðinu .

Þessi 48% verðmunur á markaðsvirði og verðmati IFS eru sögð benda til þess að bréf félagsins séu verulega undirverðlögð í kauphöll Nasdaq Iceland, en horfa þarf allt aftur til 25. janúar síðastliðinn, þegar bréfin stóðu síðast í 23,4 krónum.

Hins vegar lækkuðu bréf félagsins úr 22,1 í 16,8 krónur, eða 24% á einum degi, eða 1. febrúar síðastliðinn.

Tekjur standa í stað milli ára

IFS telur í greiningu sinni að tekjur félagsins muni standa í stað á milli ára, eða í 1,3 milljörðum Bandaríkjadala á þessu ári, sem er það sama og var í fyrra.

Á sama tíma muni farþegum þó fjölga um 11,6% á milli ára, en EBITDA hagnaðurinn mun lækka um 28% frá árinu 2016.

Tekjur aukast milli ára

Sviðsmyndin sem IFS setur upp í sinni greiningu gerir ráð fyrir því að tekjur af fólksflutningum muni aukast um 7,9% og aðrar tekjur um 10% í ár og 9% á næsta ári.

Áætlar IFS að tekjuaukinn á öðrum sviðum komi meðal annars til af auknu framboði hótelrýmis og eftirspurn eftir því ásamt annarri ferðaþjónustutengdri afþreyingu.

Eldsneytiskostnaður hækkar minna en ætti

Greiningarfyrirtækið metur að launakostnaður félagsins muni aukast um 13,5% frá fyrra ári, en þar af mun SALEK samkomulagið leggja til 4,5% til hækkunarinnar í maí.

Jafnframt er talið að eldsneytiskostnaður muni hækkað um 10% á milli ára, en hins vegar muni kostnaðarhækkanir helstu keppinauta hækka um 30-35% á sama tíma, vegna þess að félagið hefur tryggt sig fyrir vetrarhækkunum.

Gerir IFS ráð fyrir að hlutfallslega muni Icelandair standa vel, og að EBITDA félagsins verði 158,9 milljónir Bandaríkjadala og EBIT verði 64,4 milljónir dala.