Gengi hlutabréfa Eimskips hefur lækkað um 15% frá því fyrir mánuði síðan og hefur markaðsvirði félagsins því minnkað um rúma átta milljarða króna á tímabilinu. Þann 6. ágúst síðastliðinn var gengi bréfa félagsins 277,5 og markaðsvirðið um 54 milljarðar króna, en við lok markaða í gær var gengið komið í 236 og markaðsvirðið tæpir 46 milljarðar.

Uppgjör Eimskips fyrir annan ársfjórðung var töluvert undir væntingum greiningaraðila og brugðust fjárfestar á markaði illa við uppgjörinu. Lækkaði gengi bréfa félagsins um 4% á föstudag og hefur haldið áfram að lækka síðan þá. Hagnaður Eimskips nam rétt rúmum tveimur milljónum evra á öðrum fjórðungi, en á sama tímabili í fyrra nam hagnaður félagsins 7,4 milljónum evra.

Óhætt er að segja að á nær öllum helstu sviðum hafi uppgjörið valdið vonbrigðum. Tekjur jukust um 1,22% frá öðrum ársfjórðungi 2012 og námu 108,1 milljón evra, en spar greinenda gerðu ráð fyrir 2,8%- 6% vexti á milli ára.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .