*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 2. mars 2017 19:00

Markaðsvirðið nálgast 28 milljarða

Hlutabréf í Snap Inc., móðurfélagi Snapchat, hafa hækkað um 51%. Aswath Damodoran telur félagið vera ofmetið.

Ritstjórn
Skjáskot af forsíðu Snapchat

Hlutabréf í félaginu Snap Inc., sem er móðurfélag Snapchat, voru tekin til viðskipta í dag. Talsverð eftirspurn hefur verið eftir bréfunum, en hver hlutur fæst nú á tæplega 26 dali.

Útboðsgengi félagsins reyndist vera 17 dalir á hlut, en fyrirtækið hafði stefnt að því að fá 14 til 16 dali á hlut. Þegar markaðir opnuðu vestanhafs, opnaði Snap Inc. aftur á móti í 24 dölum.

Snap hefur því hækkað um rúmlega 50%, sé miðað við útboðsgengi og er markaðsvirði félagsins því farið að nálgast 28 milljarða dala. Til samanburðar nam verg landsframleiðsla Íslands tæplega 17 milljörðum dala árið 2015.

Fyrirtækið er því tæknilega séð verðmætara en vörumerki á borð við CBS Corp., American Airlines, Hershey, Campbell Soup Co., Viacom, Best Buy og Twitter.

Twitter fór á markað í nóvember árið 2013 og var útboðsgengið alls 26 dalir. Síðan þá hefur gengi bréfanna hrapað niður í tæpa 16 dali á hlut.

Aswath Damodoran, sem kennir meðal annars verðmat við New York háskóla, hafði á sínum tíma miklar efasemdir um Twitter og hafa verðspár hans heldur betur ræst.

Damodoran virðist þó einnig efast um að Snap muni haldast í þessum miklu hæðum, en hann telur 11 dali á hlut vera eðlilegt verð fyrir hvern hlut í Snap Inc.

Stikkorð: Útboð Snapchat Markaðsvirði