Laugavegur 89 til 91
Laugavegur 89 til 91
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Svo virðist sem markaðurinn með atvinnuhúsnæði sé að taka vel við sér ef marka má nýjustu veltutölur. Í júlí síðastliðnum var þinglýst 107 kaupsamningum og afsölum með atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, en svo mikill hefur þessi fjöldi ekki verið í einum mánuði frá því í janúar árið 2008. Til samanburðar var fjöldinn 43 í sama mánuði í fyrra og 25 í júlí 2009.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag sem fjallar um málið. „Má því sjá að um gríðarlega aukningu er að ræða milli ára, og í raun er þetta næstmesti fjöldi slíkra samninga sem hefur verið þinglýst í júlímánuði frá árinu 2005. Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands sem birtar voru í gær en þess má geta að tölurnar ná ekki lengra aftur en til ársins 2005,“ segir í Morgunkorni.

„Horfa verður á tölur fyrir einstaka mánuði með ákveðnum fyrirvara um sveiflur sem geta verið í þeim á milli mánaða. Þannig gefur þessi mikli fjöldi þinglýstra kaupsamninga og afsala með atvinnuhúsnæði í júlí síðastliðnum aðra mynd en tölur frá fyrri helmingi ársins en þær bentu til þess að markaðurinn með atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu væri enn í mikilli lægð. Þannig var að meðaltali 46 kaupsamningum og afsölum með atvinnuhúsnæði þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í mánuði hverjum, sem er svipaður fjöldi og á sama tímabili í fyrra og ekki hálfdrættingur á við það sem hann var áður en kreppan skall á.“