91 kaupsamningum og afsölum með atvinnuhúsnæði var þinglýst í mars síðastliðnum samanborið við 56 samninga í sama mánuði fyrra. Aukningin er því rúmlega 60%. Þetta kemur fram í morgunkornum Íslandsbanka í dag.

Utan höfuðborgarsvæðisins var aukningin ekki jafn mikil og nam þar rúmlega 18% milli ára, úr 49 samningum í fyrra í 58 samninga í ár.

Á fyrsta ársfjórðungi var samtals 402 samningum þinglýst á landinu öllu og er það aukning um 38% á milli ára. Íslandsbanki segir því ljóst að markaðurinn með atvinnuhúsnæði sé nú allur að lifna við eftir að hafa tekið mikla niðursveiflu í kjölfar hrunsins.

672 samningum með atvinnuhúsnæði var þinglýst á síðasta ári á höfuðborgarsvæðinu og var það aukning um þriðjung frá árinu áður. Engu að síður eru það helmingi færri samningar en gerðir voru á ári hverju að meðaltali á tímabilinu 2005-2008. Þá hefur verð atvinnuhúsnæðis lækkað mikið, eða um 18% á síðasta ári að raunvirði. Á sama tíma hækkaði verð á íbúðarhúsnæði á landinu öllu um 3% að raunvirði.