Hlutabréfaverð flestra félaga í Kauphöll Íslands hækkaði þónokkuð í dag í 5,2 milljarða veltu. Undantekningin er þó Icelandair Group sem lækkaði um 9,9% í 81 milljón króna viðskiptum.

Telja verður líklegt að þar skipti tíðindi af Wow air sem vinnur nú hörðum höndum af því að fá kröfuhafa sína til að breyta skuldum í hlutafé og safna nýju hlutafé. Í dag var greint frá því að skuldabréfeigendur félagsins hafi fallist á að breyta lánum sínum í hlutafé.

Mest hækkaði Festi eða um 4,1% og þá hækkaði Arion banki, viðskiptabanki Wow air, um 4%. Hagar hækkuðu um 3,1% og VÍS, Síminn og Eik um 2,9%.

Mest var velta með bréf í Marel sem nam 2,2 milljörðum króna og hækkaði félagið um 1,5% og standa bréf félagsins í 541 krónu og hafa aldrei verið hærri. Hækkun hlutabréfaverðs Marel frá áramótum nemur 46%.