*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 6. nóvember 2017 14:36

Markaðurinn andar léttar

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,77% en í hádeginu var tilkynnt um slit stjórnarmyndunarviðræðna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bréf í flestum skráðum fyrirtækjum hafa hækkað það sem af er af degi en mest hafa Hagar hækkað eða um 3,62% í 323 m.kr. viðskiptum. Þá hafa bréf í Símanum hækkað um 2,61% í 348 m.kr. viðskiptum, bréf í N1 hafa hækkað um 2,88% í 292 m.kr. viðskiptum og bréf í HB Granda hafa hækkað um 1,52% í 45 m.kr. viðskiptum.

Tvö félög lækka Icelandair um 0,31% í 196 m.kr. viðskiptum og Marel sem lækkar um 0,15% í 112 m.kr. viðskiptum. Úrvalsvísitalan hefur á heildina litið hækkað um 0,77%. Þá hefur gengi krónunnar hækkað gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum í dag.

Tilkynnt var um slit stjórnarmyndunarviðræðna Vinstri Grænna, Framsóknarflokksins, Pírata og Samfylkingarinnar nú í hádeginu en Framsóknarflokkurinn taldi meirihlutann of tæpan og erfitt væri að treysta Pírötum til þess að sitja út kjörtímabilið.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins á markaði segja markaðinn anda léttar eftir slit stjórnarmyndunarviðræðna vinstriflokkanna og því meiri líkur á jafnvægi milli aðila í ríkisstjórn og þar af leiðandi minni ótti við hærri fjármagnstekjuskatt. Krónan hafi verið að veikjast sem og hlutabréfaverð, til dæmis fyrirtækja eins og HB Granda fyrir hádegi, en nú hafi krónan styrkst og gengi flestra fyrirtækja hækkað eins og áður segir.

„Það hefur verið þungt á mörkuðum, ekki bara eftir að Katrín fékk umboðið heldur í aðdraganda kosninganna, og menn óttuðust hreina vinstristjórn sem hefði sett allt upp í loft,“ segir viðmælandinn. „Nú er bjartsýni á að ekki verði samstaða um jafnróttækar breytingar ef Bjarni myndar stjórn yfir miðjuna.“