*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 25. nóvember 2013 13:17

Markaðurinn bregst við yfirlýsingu forsætisráðherra

Gríðarleg velta er áfram á skuldabréfamarkaði.

Jón Hákon Halldórsson
Agnar Tómas Möller.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Gríðarleg velta hefur verið á skuldabréfamarkaði í morgun, en veltan var einnig mjög mikil á fimmtudag og föstudag í síðustu viku. Rétt fyrir hádegi í dag var veltan orðin rétt tæplega 16,2 milljarðar íslenskra króna.

Agnar Tómas Möller, sérfræðingur hjá GAMMA, telur að þessa miklu veltu megi rekja til tíðinda af því að ríkisstjórnin hyggist kynna hugmyndir um skuldaniðurfellingar á fimmtudaginn. „Ég held að markaðurinn hafi svolítið verið farinn að halda að þessar hugmyndir yrðu í mýflugumynd eða þá að það kæmi ekki neitt út úr þessu fyrr en seint og síðar meir. En það er erfitt að bakka út úr þessu núna miðað við yfirlýsingar um helgina,“ segir Agnar Tómas. Þar vísar hann í yfirlýsingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á laugardaginn.

Agnar Tómas segir að þessi tíðindi séu líkleg til að auka verðbólguvæntingar og leggist þungt í markaðinn yfir höfuð. „Ef þessar tillögur koma til framkvæmda þá munu þær með einum eða öðrum hætti fela í sér aukið peningamagn sem seðlabankinn mun bregðast við með auknu aðhaldi,“ segir Agnar Tómas.  Menn gætu verið að velta fyrir sér til dæmis hvort Seðlabankinn muni bregðast við með þvi að selja bréf í hans eigu úr Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ). „Þá er það slæmt fyrir öll skuldabréf, sama hvort þau eru verðtryggð eða óverðtryggð,“ segir Agnar Tómas.  „Markaðurinn hefur þó verið að verðleggja það með hækkandi ávöxtunarkröfu undanfarna viku og því óvíst hver áhrifin kunna að verða úr þessu,“ bætir Agnar Tómas við.

Agnar Tómas segir að séu þær aðgerðir sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra boðar séu ekkert yfirklór heldur einhverskonar útfærsla á því sem  hafi verið lofað, þá sé það aldrei gott fyrir skuldabréfamarkaðinn hvernig sem útfærslan á þeim verði.

Óvissan sem sé uppi núna hafi líka áhrif. „Markaðurinn er að slúðra um hin og þessi áhrif og það veldur óvissu og þá sérðu sveiflur. Það er mjög skiljanlegt að það verði flökt,“ segir Agnar Tómas.