Verðlagning á verðbréfa- og hrávörumörkuðum bendir ekki til þess að fjárfestar geri ráð fyrir því að Donald Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna, að sögn Brian Gardner, sérfræðings hjá fjárfestingabankanum Keefe, Bruyette & Woods.

Hann segir í nýlegri greiningu að samkvæmt könnunum muni Hillary Clinton bera sigurorð af Trump í kosningum á milli þeirra og að fjárfestar geri ráð fyrir að þessi verði raunin.

„Ef Trump verður líklegri til að vinna forsetaembættið gerum við ráð fyrir því að markaðir bregðist við með neikvæðum hætti og að fjárfestar flytji fé sitt í áhættuminni eignir. Skoðanir hans á alþjóðaviðskiptum eru hættulegar heimshagkerfinu og verndarstefna hans gæti stefnt birgðakeðju heimsins í hættu.“

Hann segir að fæstar hugmyndir Trump hafi verið nákvæmlega útfærðar og því fylgi kjöri hans mikil óvissa. Hún geri fjárfestum erfitt að spá fyrir um hvaða eignir muni hækka og lækka í verði við kjör Trump, en hann spái eftirfarandi. Eignir eins og hlutabréf vopnaframleiðenda, ríkisskuldabréf og kol munu hækka í verði, en hlutabréf fyrirtækja sem framleiða neyslu- og smávörur munu lækka í verði.