Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, segir í samtali við Viðskiptablaðið að það hafi verið mjög lærdómsríkt ferli að vinna með Samkeppniseftirlitinu en félagið þurfti að draga upprunalegu samrunatilkynninguna til baka og senda hana aftur frá sér með tilheyrandi sveiflum á hlutabréfaverði félagsins.

„Markaðurinn er harður húsbóndi, sem refsar fyrirtækjum hart ef þau eru ekki að standa sig, svo það er mikið aðhald í því, sem er skemmtilegt þar sem maður þarf alltaf að vera á tánum. Við runnum út á tíma, en þetta ferli var allt of langt. Nú er því lokið og við horfum fram á við,“ segir Eggert Þór.

„Við áttuðum okkur alveg á því að þetta er fastmótað ferli og þeir frekar ósveigjanlegir, en við sem erum að óska eftir samruna þurfum að koma með allar hugmyndir um hvernig mál skuli kláruð. Það er ekkert frumkvæði til þess af hálfu eftirlitsins, þannig að þetta ferli mætti gera mun betra, með auknum leiðbeiningum. Fyrir nokkrum árum kom íslenskur starfsmaður samkeppniseftirlitsins í Svíþjóð á ráðstefnu þar sem hún fór yfir það að stofnunin í Stokkhólmi hefði meiri leiðbeiningarskyldu. Þá þyrfti eftirlitið að láta vita hvaða vandkvæði þeir sæju við það ef þú segðir þitt fyrirtæki hyggjast kaupa annað.“

Þó Eggert Þór sé gagnrýninn á sumt í vinnubrögðum Samkeppniseftirlitsins segist hann hafa skilning á hlutverki stofnunarinnar. „Samkeppniseftirlitið þarf að vera til staðar, það er engin spurning. Við höfum alveg séð það á Íslandi að menn hafa byggt upp einhvers konar samsteypur og reynt að koma sem flestum inn í þær og það þarf að passa að það gerist ekki.“

Sem dæmi um það má nefna krosseignatengsl olíufélaganna og viðskiptavina þeirra sem voru vel þekkt á síðustu öld. „Umræðan um olíufélög á Íslandi er því miður enn bundin við að við séum að hittast í Öskjuhlíðinni og hagræða hlutunum, en í dag er enginn í einhverri áhrifastöðu í olíufélagi sem var að vinna fyrstu ár aldarinnar þegar upp komst um olíusamráðið. Þá vorum við flest enn í menntaskóla.“

Eggert Þór, sem er fjögurra barna faðir og afi tveggja barnabarna, segist þrátt fyrir skoðanir sínar á málefnum viðskiptalífsins engan áhuga hafa á því að gera sig gildandi við háborð íslensks viðskiptalífs, líkt og átti við um marga forvera hans í starfi, sem lengi höfðu jafnvel einkabílstjóra, en það á ekki við í dag. „Ég lít ekki á mig sem einhvern stóran karl. Við sem erum í forsvari fyrir fyrirtæki á Íslandi í dag erum bara venjulegt fólk sem fer heim til sín eftir vinnu til sinna fjölskyldunni og vinum, okkar verkefni og vandamál er ekkert ólík þeim sem aðrir Íslendingar glíma við frá degi til dags,“ segir Eggert Þór að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .