Töluverður titringur var á hlutabréfamarkaðinum í Hong Kong í gær eftir að kínversk yfirvöld tilkynntu um fyrirhuguð þjóðaröryggislög í borginni. Fjárfestar hafa áhyggjur af auknum fjöldamótmælum í Hong Kong ásamt verra viðskiptasambandi milli Kína og Bandaríkjanna vegna löggjafarinnar, samkvæmt grein Financial Times .

Við lokun markaða í morgun hafði Hang Seng vísitalan lækkað um 5,6% sem er mesta fall vísitölunnar á einum degi í tæp fimm ár.

Tilkynning kínverskra stjórnvalda kom eftir að mótmæli tóku aftur við sér í Hong Kong vegna tilslakanna á útgöngubanni. Stjórnvöld segja fyrirhuguðu löggjöfina, sem lögð verður á stjórnarskrá Hong Kong, eiga að tækla eyðileggingu, hryðjuverk og erlend afskipti í héraðinu.

Ákvörðun Kommúnistaflokksins fékk hörð viðbrögð frá bandarískum stjórnvöldum en Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði að Bandaríkin myndu bregðast harkalega við henni.

Sumir hafa áhyggjur hvort hið sérstaka viðskiptasambandi Bandaríkjanna og Hong Kong sem nær ekki til meginlands Kína muni halda ef stjórnvöld í Washington missa trú á „eitt land, tvö kerfi“ fyrirkomulaginu milli Hong Kong og Kína.

Louis Tse, framkvæmdastjóri eignarstýringarfélagsins VC í Hong Kong, sagði að ákvörðunin hafi komið fjárfestum verulega á óvart. Hún bætti þó við að stjórnvöld í Beijing hafa sterka hvata til að skipta sér ekki of mikið af fjármálakerfinu í Hong Kong sem er mikilvægur vettvangur fyrir kínversk fyrirtæki til að afla fjármagns erlendis.

„Hong Kong er eins og hraðbanki, þú setur inn lykilorð og færð pening til baka,“ hafði Financial Times eftir Tse. „Kína verður að íhuga alvarlega ýmsa hluti áður en þeir staðfesta löggjöfina.“