Eftir fordæmalausan uppgang í efnahagslífinu frá árinu 2012 til og með 2018 fór að hægja á hagkerfinu. Óvissa vegna kjarasamninga hafði sín áhrif sem og gjaldþrot stórra fyrirtækja eins og til dæmis Wow air. Þegar búið var að ýta mestri óvissunni frá skall heimsfaraldurinn á og nú ríkir kreppa, ekki bara á Íslandi heldur um gjörvallan heim. Hefur þetta meðal annars haft þau áhrif að stýrivextir hafa lækkað í 0,75 prósent. Ekki er nema ríflega eitt og hálft ár síðan þeir stóðu í 4,5%. Lækkunin hefur þegar skilað sér til almennings í formi lægri vaxta af lánum, sér í lagi íbúðalánum en það eru líka áskoranir fólgnar í þessu vaxtaumhverfi.

„Þetta setur þrýsting á vaxtamun, sem er aðaltekjustofn banka, sem verða þá að leita leiða til að hagræða í sínum rekstri,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka í bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, sem kom út fyrir skömmu.

„Ég held að enginn hafi séð það fyrir að vextir gætu farið svona lágt. Það var þó ýmislegt í kortunum þegar horft er á að hér hafði verið jákvæður viðskiptajöfnuður við útlönd mörg ár í röð og jákvæð erlend eignastaða. Þetta þýðir að þjóðin er ekki lengur nettó skuldari við útlönd heldur á hún erlendar eignir umfram skuldir. Þegar þetta gerist, og það á við um öll ríki, þá mjakast vaxtastig niður í þeirri viðleitni að viðhalda stöðunni. Miðað við þetta held ég því að flestir hafi verið undir það búnir að vextir væru á niðurleið en kannski ekki svona mikið og svona hratt.“

Benedikt reiknar með því að vextir haldist lágir yfir langt tímabil en slær þó ákveðinn varnagla og bendir á að verðbólguþróun hafi mikil áhrif á vaxtastig í jafn litlu hagkerfi og því íslenska. Verðbólgan haldist í hendur við gengisþróun, sem stýrist af viðskiptajöfnuði eða greiðslujöfnuði þjóðarbúsins. „Ef horft er sjö ár aftur í tímann þá er uppsafnaður þjóðhagslegur sparnaður Íslands 60 prósent af landsframleiðslu, sem er ótrúlega hátt hlutfall fyrir land sem yfirleitt hefur búið við viðvarandi viðskiptahalla. Þegar við komumst út úr þessum samdrætti mun verðmætasköpun skipta sköpum. Ef hún heldur áfram að vera jafn sterk og hún var áður en faraldurinn skall á þá munum við njóta lágra vaxtakjara til lengri tíma til hagsbóta fyrir alla — fyrirtæki og heimili.

Þrisvar sinnum meira af íbúðalánum

Það sem af er þessu ári er Arion banki búinn að lána þrisvar sinnum meira af íbúðalánum en á sama tímabili í fyrra. Það er mjög gott að sjá hvað neytandinn er meðvitaður um nýtt vaxtastig. Í mörgum tilfellum er greiðslubyrðin að lækka verulega sem hlutfall af mánaðarlaunum hjá fólki.“

Í tengslum við Lífskjarasamninginn, sem undirritaður var vorið 2019, skuldbatt ríkisstjórnin sig til að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, svokölluð Íslandslán, til lengri tíma en 25 ára nema með ákveðnum skilyrðum. Var það gert að kröfu verkalýðshreyfingarinnar, en nokkrir forystumenn hennar hafa viljað banna verðtryggingu alfarið.

„Sjálfur er ég hlynntur markaðslausnum og það sem er að gerast núna er að þessi verðtryggingarmál eru að leysast í gegnum markaðinn. Neytendur meta nú stöðuna þannig að miklu hagstæðara sé að taka óverðtryggð lán með annaðhvort fljótandi eða föstum vöxtum heldur en að taka verðtryggð lán. Neytendur eru að kjósa með fótunum.“

Viðtalið í heild má lesa í bókinni 300 stærstu sem kom út fyrir skömmu. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .