Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins GRID, segir samnefndan hugbúnað – sem fyrirtækið þróar og hjálpar notendum að setja fram gögn á einfaldan hátt úr Excel eða öðrum töflumreiknum – ekki hafa náð til jafn stórs hóps notenda og vonast hafði verið eftir.

Því var sú ákvörðun tekin nýlega að útvíkka hlutverk forritsins yfir í að vera heildstæð lausn með vinnslu, framsetningu og umræður um töluleg gögn, meðal annars með því að bjóða upp á eigin töflureikni .

„Það sem við sáum þegar við settum vöruna í loftið fyrir ári síðan var að þeir sem sóttust í þetta voru upp til hópa fólk með mjög ákveðnar þarfir, sem var búið að búa til Excel skjal og þurfti að breyta því í reiknivél til birtingar á vefnum. Það gekk virkilega vel að markaðsetja til þess hóps, en við höfðum strax á tilfinningunni að þetta væri ekki nógu stór markaður einn og sér.

Þessi reiknivélaleið var bara ekki að leiða okkur á jafn stóran stað og við höfðum séð fyrir okkur í upphafi að væri tækifæri til. Nú ætlum við að taka næsta skref og leyfa fólki að vinna verkefni sín alveg frá upphafi til enda innan GRID. Með vorinu munum við setja töflureiknaviðmótið í loftið og fólk getur farið að gera töflureiknaskjölin frá grunni inni í GRID.“

Sömu skipanir og Excel
Allar formúlur og skipanir í töflureikni GRID elta Excel algjörlega að sögn Hjálmars, rétt eins og Google Sheets og fleiri, svo notendur sem skipta yfir þurfa ekki að læra neitt upp á nýtt.

„Excel er þannig að það er óendanlega mikið af fítusum, en flestir notendur nota kannski bara um 10-20% af þeim. Við leggjum áherslu á að gera aðra hluti sem Excel er ekki að gera, þannig að við getum boðið þeim sem eru ekki endilega orðnir forfallnir Excel-notendur – sérstaklega yngri notendur – allt sem hinir töflureiknarnir geta gert, en með aðra möguleika umfram það og aðrar áherslur.“

Hjálmar bendir á að meirihluti þess sem fólk kann á og kannast við úr Excel sé eldra en forritið sjálft og því ekki einkaeign þess, og rekur sögu töflureikna sem hófst með tilkomu VisiCalc fyrir 40 árum, en Dan Bricklin höfundur VisiCalc starfar með Grid í dag. Meira að segja skráarformið .xlsx sem Excel notar, og Microsoft bjó vissulega sjálft til, er opinn staðall.

„Excel fann í raun lítið af þessum skipunum og notkunarmöguleikum upp sjálft. Það hefur aldrei neitt merkilegt gerst í heimi töflureikna öðruvísi en að það sé samhæft því sem á undan kom.“

Nánar er rætt við Hjálmar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .