Gengi hlutabréfa fasteignafélagsins Regins hækkaði um 2,49% í Kauphöllinni í dag. Þetta var mesta gengishækkunin á hlutabréfamarkaði. Á eftir fylgdi 2,2% hækkun á gengi bréfa Icelandair Group, 2,12% gengishækkun bréfa VÍS og Vodafone auk þess sem gengi bréfa Haga hækkaði um 0,62% og TM um 0,34%.

Á sama tíma lækkaði gengi bréfa Marel áfram eða um 0,89%.

Gengishækkunin á hlutabréfamarkaði dró nokkuð úr mikilli lækkun á hlutabréfamarkaði í gær þegar markaðurinn komst í svokallaðan bjarnarham, eins og IFS Greining kallaði stöðuna. Þá lækkaði gengisvísitalan um 1,95%. Mesta lækkunin í gær var á gengi bréfa Haga um 2,87%. Gengi bréfa Marel og Össurar fór sömuleiðis niður um meira en 2%.

Í dag hækkaði Úrvalsvísitalan hins vegar um 0,77% og fór hún aftur yfir 1.200 stigin. Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni nam tæpum 940 milljónum króna í dag.