Páll Harðarsson, forstjóri Kauphallar Nasdaq Iceland, segir í viðtali við Hjálma, blað hagfræðinema, að hinn íslenski hlutabréfamarkaður sé í auknum mæli að bregðast við titringi í erlendum mörkuðum á borð við þann kínverska.

Páll var spurður hvort Kauphöllin yrði nokkuð að bregðast við því að lækkanir í Kína hefðu ollið miklum sveiflum í heimsmarkaðnum með hlutabréf.

„Í Kína hafa menn verið að bregðast við slíkum sveiflum með því að loka markaðnum og stöðva viðskipti. Við erum með viðskiptarofa sem eru allt annars eðlis, ef það verða miklar verðbreytingar þá tekur markaðurinn smá pásu og er svo settur af stað. Það er ákveðinn strúktúr í kringum [sveiflur á borð við þær í Kína] áþekkur því sem gerist á hinum Norðurlöndunum," segir Páll.

Páli finnst þróunin á viðbrögðum íslenska markaðarins við hræringum erlendis jafnframt áhugaverða:

„Markaðurinn hér hefur verið að þróast í takt við það sem gerist erlendis. Þetta höfum við ekki séð nema í mjög litlum mæli undandarin ár. Íslenski markaðurinn var orðinn nátengdur þeim erlendu fyrir hrun, sveiflur hér endurspegluðu þær sem áttu sér stað erlendis.

Fylgnin hefur verið sáralítil og jafnvel engin síðustu ár, kannski er þetta merki um að markaðsaðilar gera ráð fyrir auknu fjármagnsflæði á milli landa þó ekki sé búið að aflétta fjármagnshöftum. Mér finnst það út af fyrir sig jákvætt, það þýðir að við séum hluti af opnu kerfi."

Blaðið Hjálmar kom út samhliða Viðskiptablaðinu síðasta fimmtudag, en það má lesa á netinu með því að smella hér.